sunnudagur, september 12, 2010

Missir

Góðan daginn

Ég sit hér í veldi danans, og hugsa heim í Akrahreppinn. Á næstu klukkutímum fara tvíburarnir Kolli og Leifur að fikra sig út úr Kleifunum, Miðdalsmenn fara að skila sér, og efsti maður þar mætir líklega Dóra á Kúskerpi og hundinum Tenór er þeir koma úr Horni. Þar efst á við dalsmynnin má sjá magnaða sjón sem samanstendur af fé og mönnum á ferð út dalina eftir þessum fallegu og grónu grundum, ýmist ríðandi eða á eigin fótum.

Þetta er mín reynsla af sunnudegi í göngum, því ég hef ávallt farið í Kleifarnar eða Miðdal. Svo er borðað í kofanum og þarnæst safnið rekið niður í rétt. Ég hef nú ávallt tekið í rólega að reka niður, svona eftir að ég fór fyrst í göngur 14 ára gamall. Það er ákaflega góður og fastur punktur í þeirri tilveru að sitja lengi inn í Patrolnum hjá Fúsa á Uppsölum og spjalla, kannski hoppa út og grípa eina og eina gamla ær sem hefur örmagnast og henda henni í kerruna.

Nánast allir sem ég þekki hafa gaman af því að fara í göngur og/eða réttir, og eflaust liggja margar ástæður fyrir því sem ég ætla nú ekki að tíunda hér. En þeir sem hafa líklega mest gaman af því eru sauðfjárbændurnir sjálfir, og ástæðan fyrir því er kannski ekkert sérlega rómantísk, þeir eru að fara að fá útborgað.

Svona trega- og söknuðarpistlar eru nánast árlegir hjá mér, og þó að ég verði nú erlendis næstu árin getur maður alltaf lifað í voninni um næsta haust, kostar víst ekkert að láta sig dreyma.

En að öðru, þessi Senegali sem er í liðinu með mér hættir ekki að skemmta mér með bullinu í sér. Í gær pantaði hann sér t.d. McBacon-borgara en bað þá um að sleppa beikoninu, ég vissi nú ekki hvert ég ætlaði. Til að þið getið áttað ykkur betur á því hvernig hann tala er hér myndband með Eddie Murphy, spólið áfram á 1:00 og þá byrjar Murphy að tala. Röddin hjá Senegalanum er kannski ekki alveg eins, en framburður og áherslur ótrúlega svipað.




Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð