mánudagur, september 06, 2010

Einn á flakki

Komið nú sæl og blessuð elskurnar mínar

Ekki nema 7 mánuðir síðan ég páraði eitthvað niður síðast, sem er eðlilegt þar sem það hefur nákvæmlega ekkert gerst á þeim tíma, allavega ekkert sem ég man eftir af einhverjum óþekktum ástæðum.

En nú er maður kominn til Kaupmannahafnar, þar sem meiningin er að hafa vetursetu, og því gráupplagt að gera eitthvað af sér. Tæknilega séð er ég þó ekki í okkar fornu höfuðborg, því ég bý í smábænum (um 18.000 hræður) Værlöse sem er 16 km frá miðbænum. Þar er körfuboltaliðið Værlöse Basket Ball Klub staðsett, en með því ágæta félagi mun ég spila í vetur.

Ég lenti á meginlandinu á miðvikudagsmorguninn og var sendur beint á æfingu um kvöldið, mikið óskaplega var það nú erfitt. Til að bæta gráu ofan á svart þá voru 2 æfingaleikir um helgina, sem betur fer gegn 1. deildar liðum (deild fyrir neðan okkur) þannig að það var ekki hundrað í hættunni þó að bensíntankurinn endist ekki allan leikinn.

Liðsfélagarnir koma úr ýmsum áttum. Þeir 2 sem fá þann eftirsótta titil að vera mestu týpurnar, ef svo má að orði komast, eru Dani af marakkóskum ættum og erlendi leikmaðurinn sem kemur frá Senegal (eða hinn erlendi leikamaðurinn, ætli ég þurfi ekki að sætta mig við að flokkast sem slíkur).

Daninn/Marakkómaðurinn er lítill skratti sem talar út í eitt og er alltaf að pæla í einhverjum leiðum til að græða pening. Nú síðast í dag bað hann mig að finna eitthvað sem framleitt er á Íslandi, og mætti selja út um allan heim til að mokgræða. Svo erum við komnir með plan um að mæta á næsta uppboð á minkaskinnum hjá danska uppboðshúsinu, veit nú ekki alveg hvort að hann muni fynna gullæðina sína þar, en það ætti allavega að vera áhugavert. Hann þarf reyndar að fasta þessa dagana út af Ramödunni og því er aðeins farið að draga af honum eftir leiki helgarinnar.

Senegalinn er 208 sentimetrar á hæð, alveg bikarsvartur, rífur kjaft og bullar út í eitt. Eini gallinn við hann er sá að hann var í háskóla í Bandaríkjum Norður-Ameríku og því er hreimurinn hans því miður bandarískur en ekki afrískur.

Nú eru tæpar 3 vikur í fyrsta leik, sem gerir þetta haust líklega stysta undirbúningstímabil sem ég hef tekið þátt í. Fyrsti leikur er 26. sept á útivelli gegn Horsens, en þar þjálfar einmitt Kenneth Webb, sem eitt sinn var við stjórnvölin í Fjósinu í Borgarnesi.

Læt þetta nægja í bili

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð