mánudagur, desember 10, 2007

Á Spáni er.....

.... Ekki gaman að vera á hækjum. Ég var nú orðin svolítið þreyttur í höndunum og vinstri fætinum á stundum. En það var vissulega vel þess virði, margt að sjá á þessum stað, verst að við gátum sennilega ekki séð nema helmingin af því sem hægt var að sjá vegna þess að sumir fóru hægar yfir en aðrir... nefnum engin nöfn. Skemmtilegast fannst mér að fara í þjóðminjasafn Katalóníu, því þar fékk ég afnot af hjólastól, og fann þennann forláta FIAT 600 sem var til sýnis, ég lék mér að því að rúlla hjólastólnum í svipaða stöðu og framsætin og komst að því að ef ég rétti úr fótunum þá náði ég framfyrir framdekkin.

Annars skil ég ekki þessa fýlu sem Spánverjar eru alltaf í, t.d. þegar ég var einu sinni að benda Sóley á eitthvað, og gleymdi mér aðeins og notaði hækjuna til þess þá var ég næstum því búinn að slá henni í einhvern gamlann Spanjóla og ég sagði nú bara úbbs og brosti en hann ætlaði að drepa mig með augnaráðinu.... skil ekki svona.

Próf eru yndislegur tími, eða eitthvað svoleiðis. Ég á nú að vera að læra fyrir próf í sauðfjárrækt en það er nauðsynlegt að hreinsa hugann aðeins áður en haldið verður áfram eftir matinn, sem var öllum á óvörum steiktur fiskur og grjónagrautur í mötuneytinu á Hvanneyri.

Ég vona það innilega að ég losni við gifsið á morgun. Orðinn alveg hundleiður á að geta ekki keyrt og þurfa að biðja aðra um að bera fyrir mig matinn inn í matsal.

Ég læt fylgja hér með fallega mynd sem ég tók einhverntímann í haust. Mér finnst hún vera svolítið listræn, múgavélin sem lokið hefur ævistarfi sínu, situr þarna gamalgróin og virðir fyrir sér mannlífið með yfirsýn yfir Lundarreykjadalinn og Andakílinn.

Smá viðbót frá því í gær. Ég gleymdi að henda inn spurningunni í Sambandsleiknum sem ég var búinn að finna upp á, en hún er svohljóðandi: Árið 1933 keypti Samband Íslenskra Samvinnufélaga frystihúsið Herðubreið í Reykjavík sem hluta af sístækkandi starfsemi þess. Hvaða starfsemi fer fram í þessu húsi nú á dögum?


Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð