sunnudagur, desember 30, 2007

Síðasti söludagur

Heilt og sælt ágæta fólk og gleðilegt árið.

Of langt síðan síðast, einhver leti hefur gripið mannskapinn og því lítið verið sett inn.

Lítið bólar á framförum í fætinum á mér, fer í myndatöku á eftir og ef hún kemur ekki vel út þá er ég að spá í að biðja Baldur um að hjálpa mér við að setja borðabolta í staðinn fyrir beinið, það hlýtur nú að vera í lagi, en hann yrði nú líklega að vera ryðfrír.

Loksins get ég státað af einhverjum myndum úr Barcelonaferðinni góðu, og hér er tvímælalaust uppáhalds myndin mín. Hér sést ég bera mig saman við FIAT 600, ég veit reyndar ekki hvaða árgerð hann er en eins og sést væri sennilega frekar erfitt fyrir t.d. körfuboltalið að ætla ferðast um langar leiðir á slíkum úrvalsfák. Þess má geta að ég rúntaði um í þessum hjólastól þegar við skoðuðum þetta safn, nennti nú bara einfaldlega ekki að vera á hækjunum. Það var nefnilega ekki slegið mjög slöku við í skoðunarferðum, sem var orðið ansi lýandi á stundum. Sérstaklega var erfitt að fara upp í kastalann á hæðinni því þar var mikið upp í mót og allt mjög gamalt og því voru göturnar hellulagðar, og ekkert mjög sléttar né jafnar eftir nokkuð hundruð ára notkun.

Jólin og áramótin voru nú bara nokkuð góð. Þar sem ég er enn á batavegi þá þurfti ég ekkert að mæta á æfingar, og því hef ég nú bara ekki verið jafn slakur um jól í háa herrans tíð. Fór að vísu ekkert norður þar sem Gamli Sorrý Gráni er ekki í það góðu formi að hann komist á milli sýslna. En það stefnir nú í að ég verði þónokkuð í Skagafirðinum í Janúar og Febrúar þannig að þetta sleppur nú allt saman.
Fór nokkrar mjólkurferðir um jólin, sem var nú bara ágætt, svona rétt til að endurnýja kynnin við vestlensku kýrnar. Það var reyndar leiðinlega vont færi á annan í jólum sem gerði það að verkum að ferðin tók um 15 tíma, en mjólkin skilaði sér og það er fyrir öllu.

Læt hérna í lokin fylgja með mynd af þessum kastala í Barcelona sem ég náði að klöngrast upp í.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð