mánudagur, apríl 07, 2008

Jæja

Ég heilsa frá Hvanneyri, frekar þreyttur.

Kom bara að norðan í hádeginu. Fór þangað á laugardaginn og nennti ómögulega að fara til baka í gær sökum almenns slappleika. Ástæðan fyrir slappleikanum var sú að ég fór á stórgott ball á Mælifelli þar sem mikið var af góðum mönnum og að sjálfsögðu var klósettsöngur og allt tilheyrandi.

Það vita sjálfsagt flestir ástæðuna fyrir því að ég leyfði mér að fara norður og lyfta glösum.... en á fimmtudaginn síðasta þá duttum við Skallagrímsmenn út úr Íslandsmótinu og erum kominr í sumarfrí. Fyrir mig var þetta sérstaklega merkilegt sökum þess að þetta var nú minn síðasti leikur hérlendis. Næsta haust mun ég fara alla leið austur til Ungverjalands og setjast á skólabekk og vera þar næstu 4 og 1/2 árin og geri nú ekki ráð fyrir því að reima á mig skóna þegar ég kem til baka. Árin urðu því 8 og leikirnir í öllum keppnum tæplega 250 ef ég hef talið rétt. (Þetta skrifaði ég á mánudaginn en varð svo frá að hverfa sökum mikils hausverks og hef ekkert komist í að klára færsluna síðan þá...)
En höldum áfram þar sem frá var horfið:
Ég vildi bara þakka öllum þeim sem mætt hafa á leik með mér kærlega fyrir stuðningin í gegnum árin og sérstaklega þeim sem mætt hafa sökum þess að ég hafi verið í öðru hvoru liðinu ef svo má að orði komast. Sem dæmi má nefna að í síðasta leiknum voru mæðgurnar í Múlakoti að sjálfsögðu mættar, en einnig Litli-Per, Villi Special og Anna Lilja og Per jafn hlédrægur að vanda á leikjum.
ÍR-ingar voru nú seigir að vinna í Toyotahöllinni, en betra er að fagna ekki of snemma, þeir unnu nú líka fyrsta leikinn fyrir 3 árum og töpuðu næstu 3 með 25 stigum eða meira. En annars finnst mér skemmtilegt að nokkur íþróttahús séu farin að heita eftir styrktaraðilum, a.m.k. ef ekkert betra nafn er til en Íþróttahús Keflavíkur. Ég sagði nú við pabba um daginn að Kaupfélagið ætti að styrkja íþróttahúsið á Króknum og skíra það Geirmundarstaði. Er einhver með góða tillögu að nafni á Íþróttahúsið í Borgarnesi, mér dettur ekkert í hug.
Í gær byrjaði ég að gera lokaverkefnið mitt upp tölfræðilega í hinu stórskemmtilega forriti Minitab.... sem er æði. Þetta er svo ótrúlega gaman að ég verð að kveðja ykkur í bili og halda áfram að vinna í þessu.
Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð