miðvikudagur, júlí 18, 2007

Kæri Svarfaðardalur

Það voru nú liðnir ár og dagar síðan ég hafði fengið mér í aðra tánna 2 kvöld í röð, en það gerðist einmitt um helgina. Eins og sönnum unglingum sæmir kölluðu ég og Sóley til leiks á föstudaginn sökum þess að húsráðendur voru ekki heima. Það sem hefur líklega bjargað þeirri samkomu frá því að drepast úr leiðindum var það að bæði Hr. Tobías og Villi Special voru edrú og að keyra. En það skipti kannski ekki máli, þeirra leiðindi hefðu kannski bara verið dropi í hafið.

Á laugardagsmorguninn var svo rifið sig af stað og haldið í Svarfaðardalinn á henni Jósefínu. Íslandsmeistaramótið í hestaíþróttum var það sem heillaði, og Kalli á Grund var búinn að lofa okkur að veðrið yrði skaplegt. Ekki náðum við nú miklu af mótinu, en nógu miklu samt og fyrsti maðurinn sem ég sá eftir að hafa sest í einhverja þá bröttustu brekku sem ég hef séð var sjálfur Rúnar Númason. Ég og Sóley höfðum haft áhyggjur af því að það sæist vel á okkur að við hefðum verið að drekka kvöldið áður, en þær áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir sólu er við sáum Rúnar. Um kvöldið var svo skemmtun með Erni Árna og Óskari í Álftagerði og var hún bara helvíti skemmtileg. Ballið var svona tja... já maður var allavega með vín við hönd þannig að það slapp.



Sunnudagurinnn var bara með betri þynnkudögum sem maður getur ímyndað sér, að sjálfsögðu fyrir utan þá þar sem þynnkan er drepin snögglega. Við fengum gistingu á Grund og eftir að Kalli hafði gefið okkur að borða þá dreif hann okkur í útsýnisrúnt um Svarfaðardalinn. Var gaman að sjá mörg falleg bú, en það skemmtilegasta var eggjasjálfsalinn sem var staðsettur við afleggjarann hjá einum bænum. Var hann þannig upp settur að þetta var trékassi með eggjabökkum og var ætlast til þess að fólk skildi bara tiltekna fjárhæð eftir í kassanum í staðinn fyrir bakkann sem það tæki. Kalli sagði okkur eftir rekstraraðilum eggjasjálfsalans að ferðalangar væru ótrúlega samviskusamir að skilja eftir rétta fjárhæð, enda fólk komið nógu langt frá Reykjavík og svik, prettir og eiginhagsmunasemi ekki lengur ríkjandi í hugum fólks eins og Sóley komst svo skemmtilega að orði.... hún sagði þetta kannski ekki nákvæmlega svona en mér fannst þessi andi svífa yfir orðum hennar.


Ég vil nota tækifærið og þakka Kalla vinnumanni á Grund fyrir höfðinglegar móttökur og Rúnari, sem ávallt mun heita Rúnar bóndi í mínum huga fyrir sprittið handa Sóley.

Efri mynd: Rúnar og Sóley hægra megin og Kalli vinstra megin við borðið.

Neðri mynd: Falleg mynd úr Svarfaðardal.

Þar til síðar.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð