laugardagur, apríl 18, 2009

Morgunsvefn er melur í búi

Góðann daginn

Þá er liðin vika síðan ég kom aftur til Budapest eftir góða ferð heim. Freistaðist til að skella mér í viku úthald á Íslandi, ferðaðist í 39 tíma á þessari viku, og var þunnur upp á hvern einasta klukkutíma.

Þurfti að fljúga í gegnum bæði Vínarborg og London, sem þýðir að ég þurfti að fara 6 sinnum í gegnum öryggisskoðun á þessari viku. Það væri nú ekki frásögu færandi fyrir annað en það, að þegar ég kom aftur hingað út tók ég eftir því að ég hafði fyrir slysni gleymt að taka 10 hnífsblöð sem ég nota í verklega líffærafræði úr bakpokanum, það að tæknilega séð var ég vopnaður í öllum flugunum. En aftur á móti hirtu þessir andskotar af mér 3 kíló af skyri og geltúbu, ég var brjálaður.

Svo eru nú ekki nema 5 dagar í að fjöldi Sólheimahunda hér í Budapest muni tvöfaldast, jafnvel þrefaldast, því Arnar og Kristín eru að fara að mæta á svæðið, og aldrei að vita nema Gamli Sólheimahundurinn fljóti með líka. Ég er bara orðinn nokkuð spenntur því til að hafa ofan af fyrir okkur munum við fara og gera eitthvað það skemmtilegasta sem nokkur maður getur gert, en það er að fara og skoða kýr. Leiðin liggur austur á sléttuna miklu og skoða nautgripakyn þeirra Ungverja (sjá mynd).

Prófataflan er svona að fæðast hjá mér, þetta verður áhugavert, þarf að fara í 12 lokapróf, sem verður auðvitað ekkert nema stuð, og heimkoma verður aldrei fyrr en á þjóðhátíðardag vorn, þann 17. júní.

Íslandi allt

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð