laugardagur, mars 21, 2009

Vor í dal

Gott kvöld

Þó að æði ógn og hríðir,
aldrei neinu kvíða skal.
Alltaf birtir upp um síðir,
aftur kemur vor í dal

Nú er ég eiginlega alveg að farast, mig langar svo heim og komast í íslenska vorið, en læt mér duga að horfa á það í gegnum vefmyndavélarnar, það hlýtur að duga. Ekki nóg með að vorveðrið sem er heima núna kveiki á mér, heldur kemur alveg fiðringur við það að úrslitakeppnin í körfunni sé á fullu.

En að öðru, það hlaut að gerast fyrr eða síðar að ég kæmist í kast við lögin hér í Budapest. Ég var á leiðinni í skólann á fimmtudagsmorgun samkvæmt venju, og samkvæmt annarri venju þá ætlaði ég að labba beint yfir Andrássy götuna í staðinn fyrir að taka 30-40 metra krók yfir gangbrautina. Vildi ekki betur til þegar ég stend á miðri götunni en að lögreglubíll kemur þangað askvaðandi og kona skrúfar niður rúðuna og skipar mér að snúa við og nota gangbrautina. Ég varð auðvitað að hlýða því, en með semingi þó. Skemmtilegra hefði verið að hlýða henni ekki og segjast hafa lent í öflugri lögregluþjónum en henni og komist lífs af, förum ekki nánar út í þá sögu hér á vefnum, en flestir lesendur þessarar síðu vita eflaust hvað ég á við.

Það hefur eitthvað örlað á því að ég hafi verið spurður um dagsetningu á heimferð. Það eru komnar mjög fáar dagsetningar á próf, og þar sem þau eru eiginlega öll munnleg þá er þetta að miklu leyti samkomulag milli nemenda og kennara. En ég er allavega ekki að koma heim fyrr en 10 júní í fyrsta lagi, og mjög líklega seinna.

Það eru 19 dagar í Tobías, og djöfull sem það verður leiðinlegt.

Íslandi allt

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð